Samkeppni

Auglýsing á PDF

Samkeppni fyrir myndlistarmenn - Forval

Höfðatorg verður bráðum fullunnið og framkvæmdir komast á lokastig innan fárra ára. Af því tilefni hefur verið ákveðið að efna til samkeppni um gerð útilistaverks á Höfðatorgi. 

Auglýst er eftir myndlistarmönnum til að taka þátt í forvali að lokaðri samkeppni.

Listaverkinu/-verkunum er ætlað að auðga mannlíf á Höfðatorgi, verða eitt af kennileitum Reykjavíkur og hluti af því margbreytilega svæði sem verður til á Höfðatorgi. Mikilvægt er að verkið/verkin taki tillit til umhverfisins og falli vel að svæðinu. 

SAMKEPPNI Í TVEIMUR HLUTUM

Landslag og yfirlitsmynd

Svæðið sem um ræðir er bæði inngarður Höfðatorgs og svæðin utan með byggðinni sem er innan lóðamarka Höfðatorgs.

Þátttakendum er frjálst að koma með tillögur að staðsetningu hvar sem er á svæðinu en gert er ráð fyrir að megináhersla verði miðsvæðis þar sem ætla má að fólk komi saman, á svæðinu milli bygginganna sem saman mynda torgið.

Verkið þarf að geta staðið sjálfstætt og því er ekki gert ráð fyrir að verkið tengist byggingunum með beinum hætti.

Samkeppnin

Um er að ræða lokaða samkeppni með forvali. Sérstök forvalsnefnd, skipuð fulltrúum frá eigendum fasteigna á Höfðatorgi og Pálmari Kristmundssyni arkitekt, mun velja úr innsendum umsóknum allt að fimm myndlistarmenn til þess að taka þátt í samkeppninni.

Þeir listamenn sem valdir verða til þátttöku í lokaða hluta samkeppninnar fá greiddar 400.000 kr. hver fyrir að skila inn vel útfærðri tillögu.

Dómnefnd, skipuð fulltrúum eigenda og Pálmari Kristmundssyni arkitekt, mun síðan velja eina eða fleiri af tillögunum til útfærslu. Vinningstillagan mun auk þess hljóta 600.000 kr. í verðlaun. 

Eigendur áskilja sér rétt til að kaupa fleiri verk sem skilað verður inn.

Fjárhagsrammi

Eigendur fasteigna á Höfðatorgi munu standa straum af öllum kostnaði við gerð og uppsetningu verksins, en heildarkostnaður má nema allt að 40 milljónum króna.

Innan þess fjárhagsramma skal rúmast allur kostnaður við verkið; s.s. undirbúningur, efni, framkvæmd og aðkeypt vinna, auk höfundargreiðslu og þóknunar til listamannsins. 

Umsókn um forval:

Rétt til að sækja um í forvali hafa allir myndlistarmenn. Í umsókn skal gerð grein fyrir áhuga á verkefninu, forsendum og hæfni til að útfæra varanlegt útilistaverk auk lauslegrar hugmyndar að fyrirhuguðu verki. Umsóknir um þátttöku í samkeppninni verða að hafa borist fyrir kl. 16:00 föstudaginn 27. apríl 2018 á skrifstofu Höfðatorgs, Stórhöfða 34-40, 110 Reykjavík, merkt:

List á Höfðatorgi

Skal skila verkinu inn undir dulnefni og skal lokað umslag með sama nafni fylgja sem opnað verður þegar dómnefnd hefur valið allt að fimm tillögur til frekari vinnslu í lokaða hluta samkeppninnar.

Öllum umsækjendum í forvalshluta verður svarað fyrir 18. maí 2018. Skilafrestur tillagna í lokaða hluta samkeppninnar verður 14. september 2018 og munu úrslit hennar verða kynnt í október nk.

Yfirlitsmyndir af Höfðatorgi er hægt að fá sendar með tölvupósti. Einnig verður öllum fyrirspurnum sem berast fyrir 13. apríl 2018 svarað til allra umsækjanda, vinsamlegast sendið tölvupóst á petur@eykt.is og gunnarvalur@eykt.is.

Samtök íslenskra myndlistarmanna, SÍM, er með vefsíðu, sjá www.sim.is. Þetta eru í sjálfu sér allir listamenn.