Mannlíf og saga

Mannlíf

Gömul mynd af Borgartúni

Göngugötur og torg ná yfir rúmlega helming af Höfðatorgsreitnum og skapa umgjörð fyrir fjölbreytt mannlíf, veitingastaði og kaffihús, verslanir og margvíslega þjónustu. Öll starfsemi miðast við að skapa hlýlegan miðbæjarkjarna sem þjónar íbúum, starfsfólki, nágrönnum, gestum og gangandi. 

Kaffihús og veitingastaðir opna út þegar vel viðrar á Höfðatorgi. Hönnun bygginga miðast við að veita gott skjól og tengibyggingar með glerþökum gera Höfðatorg að skemmtilegu svæði allan ársins hring. Nægt rými verður utandyra fyrir tónleika, listsýningar og aðrar uppákomur. Höfðatorg verður þannig samfélag athafnalífs, menningar, verslunar og þjónustu í náinni sambúð við íbúa á svæðinu.

Markmið okkar er að skapa torgmenningu af því tagi sem Íslendingar hafa kynnst víða erlendis og áhugaverð viðbót við aðra staði þar sem borgarbúar hittast á tyllidögum, s.s. Austurvöll, Lækjargötu, og Arnarhól. 

Höfði og Höfðaborg

Næsti nágranni Höfðatorgs er Höfði sjálfur, eitt helstu kennileita Reykjavíkur og hús með sérstæða sögu. Þetta fallega hús var flutt inn í byrjun aldarinnar frá Noregi, nánast í heilu lagi, fyrir franska konsúlinn Brillouin, sem bjó þar til 1914. Þá keypti athafnaskáldið Einar Benediktsson húsið og nefndi Héðinshöfða, sem styttist með tímanum í núverandi nafn.

Höfði og Höfðatorg

Eftir að Einar Ben seldi Norðurljósin og flutti úr Höfða bjuggu þar ýmsir merkismenn. Páll Einarsson, fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur, bjó í Höfða og á eftir honum Matthías Einarsson læknir, faðir Lovísu listmálara. Bretar réðu húsum í Höfða frá 1938 og allt til ’51 þegar Ingólfur Espólín keypti húsið, bjó þar og rak smáiðnað. Sagt er að síðasti sendiherra Breta sem bjó í húsinu muni hafa verið myrkfælinn í meira lagi, hann sá hvíta konu á sveimi í húsinu og heimtaði flutning vegna draugagangs. 

Árið 1962 komst Höfði aftur í eigu Reykjavíkurborgar og var fyrirhugað að rífa húsið. Haft er fyrir satt að borgarverkfræðingur hafi látið gera húsið upp án vitundar borgaryfirvalda og þannig bjargað því frá niðurrifi. Geir Hallgrímsson borgarstjóri hreifst af verkinu og hefur húsið verið notað fyrir móttökur og fundi frá 1968.